No. 1
Í hvert sinn sem nýtt ár gengur í garð fyllast margir eldmóði. Við erum komin með nýju dagbækurnar í hendurnar, óskrifað blað sem einhverjir fá nettan kvíða yfir en aðrir fá fiðring vegna óskrifaðra ævintýra. Dagarnir eru farnir að lengjast eftir myrkrið vikurnar á undan og svo eru það auðvitað áramótaheitin klassísku. Það eru jafnvel spennandi viðburðir framundan og krafturinn sem fylgir nýrri byrjun minnir svolítið á skólabyrjun að hausti þegar allir fá sína kæru rútínu aftur eftir sleppitúra sumarsins.
Hér er þó ekki búið að setja nýtt líkamsræktarkort á kreditkortið eða fela restina af jólakonfektinu og vínflöskurnar. Ónei! Okkar nýja byrjun verður nýtt í þetta… að blogga.
Hér langar okkur að deila með ykkur okkar hugðarefnum sem tengjast stefnum og straumum í híbýla hönnun, listinni að gera huggulegt, innlitum og öðru sem vekur áhuga okkar hverju sinni. Við hlökkum til að hefja árið með ykkur og hvetjum ykkur til að senda á okkur línu með ykkar hugsunum, við viljum alltaf heyra skemmtilegar hugmyndir.
Skráið ykkur svo endilega á póstlistann til að missa örugglega ekki af tilboðum og nýjustu póstum.
Bryndís & Stella