Frí heimsending á pöntunum yfir 15.000

Spjallið: Hildur Hvassó

Spjallið

Hildur Gunnlaugsdóttir ætti ekki að vera ókunn neinum fagurkera eða áhugafólki almennt um heimili og hönnun. Við tókum smá spjall með Hildi þar sem hún segir okkur aðeins frá sér, hugmyndum um vellíðan á heimilinu og gefur okkur nokkur ráð.

Hildur er með Ba og mastersgráðu í arkitekúr og mastersgráðu í umhverfisfræði. ,,Ég á 3 yndislegar stelpur, einn næstum því jafn yndislegan mann og dásamlegan stjúpson. Ég er framkvæmdastjóri JVST arkitektastofunnar á Íslandi en hún hefur verið starfrækt í mörg ár í Hollandi en skipti nýverið um nafn og opnaði útibú hér á landi í kjölfar þess að hafa unnið til nokkuð margra arkitektasamkeppna hér á landi. Ég bý í Hvassaleitinu í Reykjavík og við höfum verið hægt og rólega að gera raðhúsið upp síðustu 2 ár. Það er ótrúlega margt búið en samt svo margt eftir."

Hildur er mjög dugleg að deila myndum af heimili sínu á instagram - glaðlegum litum í arkitektúr og hönnun og er á sama tíma dugleg að nota liti heima hjá sér. Við erum forvitnar  að heyra  aðeins frá litaskynjun hennar og hvaða áhrif litanotkun hefur í hennar daglega lífi.
,,Það er ótrúlega gaman að stilla litum saman og prófa sig áfram í þeim efnum. Heimilið er þó svolítið skipt en alrýmið er í fremur einfaldri litapallettu á meðan ég hef verið djarfari í leikrými barnanna og herbergjum þeirra. Litir geta haft svo margvísleg áhrif á okkur, þess vegna valdi ég td að mála kjallarann í ljósum glaðlegum litum. Veggirnir eru frekar hráir og gólfið steypt. Hefði ég málað hann í dökkum eða jafnvel bara gráum tónum þá hefði hann orðið eins og fangelsi held ég... Og börnin ekki nennt að leika þar. Dökkir litir geta verið kósí í réttu samhengi en þetta var alls ekki það."

Þetta leikherbergi er algjör draumur með öll þessi litlu uppbrot, glaðlegum litum og lítið ævintýrahorn. Þá förum við að velta fyrir okkur stíl sem hefur verið vinsæll í barnaherbergjum en síðustu ár hafa svokölluð monocrome herbergi verið vinsæl, sérðu breytingar frá þeim stíl undanfarið og þá í hvaða áttir? Hvaða litatrend sérðu td fyrir þér 2022?
,,Bjartir pastellitir og fjólublár og allskonar held ég... Það verður samt örugglega smá viðbrigði fyrir þau sem hafa málað allt svart. En svo er líka kannski bara málið að fólk sem elskar svart líka bara haldið áfram að mála svart og það er bara í fínu lagi." Hildur sér greinilega fyrir sér bjartari litatíma.

Miklar breytingar í samfélaginu hafa leitt af sér breytingar heimavið. Rými sem voru áður eyrnamerkt ákveðnu hlutverki þurfa sum hver nú að vera fjölnota ma vegna þess að vinnan er að hluta til komin heim hjá sumum og við höfum varið meiri tíma heima hjá okkur. Opin rými hafa verið vinsæl þar sem eldhús og stofa eru í sama rými, sérðu fyrir þér að eftirspurn eftir opnum rýmum haldi áfram að vera mikil eða ætli við viljum fara að skipta heimilum okkar aftur meira niður?
,,Að mínu mati verður ekki aftur snúið með þessa þróun á næstunni. Það er eitthvað svo fallegt við það að öll fjölskyldan rúmist í sama rými án þess að vera endilega að gera það sama. Sérstaklega í dag þegar allir eru með sitt hvorn skjáinn fyrir augunum, þá er nú ekki verra að vera amk saman. Þetta tengist örugglega líka breyttum hlutverkum, konan er ekki lengur í fullri vinnu í eldhúsinu og þvottahúsinu, eða ætti að amk ekki að vera það. Í bjartasta rýminu í raðhúsinu hjá mér, sem nú er hluti alrýmisins, var áður húsbóndaherbergið en í kjallaranum var saumaherbergið og eldhúsið snéri til norðurs... Þannig að breytingarnar sem við gerðum á arkitektúr heimilisins hefur greinilega fylgt þessum nýju hlutverkum - þótt ég sé nokkuð viss um að konur vinni mun meira innan heimilisins enn í dag svo ekki sé minnst á þriðju vaktina... Arkitektúr og skipulag heimila mun örugglega halda áfram að breytast í takt við samfélagslegar breytingar. Nú sjáum við mikilvægi heimaskrifstofunnar í kjölfar covid. Kannski húsbóndaherbergin eigi endurkomu undir öðru nafni." 
Hér fyrir neðan sjáið þið að græna glæsilega eldhúsið hennar Hildar er einmitt staðsett í opnu sými þar sem gott flæði myndast hjá fjölskyldu í ólíkum verkefnum. Maður sér alveg fyrir sér barn liggja á maganum í sófanum með lappirnar dinglandi í loftinu að fletta bók, annað á barstól við eyjuna að sinna heimalestri og lauma upp í sig bitum af hverju því sem foreldrarnir eru að kokka í eldhúsinu. Kannski ætti sú sem þetta skrifar að setja inn spjaldtölvur í stað bóka en æj... hitt er draumkenndara ;) 

Hvaða ráð hefur Hildur fyrir fólk sem vill hressa upp heimilið án mikils tilkostnaðar?
,,Það sem hefur reynst mér gott sparnaðarráð er að reyna að nýta það sem hægt er. Ég pússaði upp og lakkaði einu sinni eldhúsið í einni íbúð, tók niður efri skápa og breytti með litlum tilkostnaði. Hér í Hvassaleiti skipti ég bara út klósettum og vöskum inni á baðherbergjunum því restin var heilt. Þannig framlengdi ég líf baðherbergjanna um nokkur ár. Það er líka frábært að reyna að kaupa sem mest notað og alltaf fá 3 tilboð í öll verk!" 

Instagrammarar sem Hildur mælir með:
Céline Hallas
Cathrine 
Guðrún Lára 
Richard 

Að lokum viljum við henda í nokkrar hraðaspurningar:

-Uppáhalds efniviður að vinna með á heimilinu? ,,Mig langar að smíða meira... en ætli það er ekki málning 😅  það er samt miklu skemmtilegra að mála eitthvað munstur en að mála bara einn lit..."
-Skemmtilegasta litapallettan? ,,Litir sem passa óvænt vel saman og svipaðir litir í mismunandi styrkleika, það getur oft verið svolítið skemmtilegt."
-Litlausasti staður sem þú hefur farið til? ,,Ji stórt er spurt... Ætli það séu ekki spítalar. Ég get samt algjörlega líka haft gaman af alveg litlausum rýmum en þá þarf eiginlega vera einhver hugsun með því. Það gæti td verið hvít rými með stórum hvítum húsgögnum svo gæti bara verið æði."
-Næst á dagskrá innan heimilisins? ,,Næst er það garðurinn. Ég hlakka svo til að vera með dásamlegan garð og pott. Já svo er það að byggja yfir þaksvalir og að bæta baðherbergi við niðri í kjallaranum... Og já að opna inn í bílskúr en þar er góð lofthæð og vera með bókastofu / heimaskrifstofu... Já ýmislegt haha"
-Mottó: ,, Ég veit ekki hvort þetta sé beint mottó en ég reyni að hugsa alltaf fallega til allra, samgleðjast þeim sem gengur vel, tala ekki illa um aðra og bara umvefja mig jákvæðnu og góðu fólki."

Við þökkum Hildi fyrir spjallið og höldum glaðar út í vorsólina fullar af innblæstri.